Lög Félags almennra lækna

I. KAFLI

Heiti félagsins, lögheimili, eðli og tilgangur

1. gr.

Heiti félagsins, lögheimili og varnarþing

Félagið heitir Félag almennra lækna, skammstafað FAL. Heiti félagsins á ensku er The Icelandic association of junior doctors. Lögheimili þess og varnarþing er í Kópavogi.

2. gr.

Eðli félagsins

Félag almennra lækna er sjálfstætt aðildarfélag Læknafélags Íslands (LÍ) með réttarstöðu svæðafélags.

3. gr.

Tilgangur félagsins

Tilgangur félagsins er:
1. Að gæta hagsmuna félagsmanna, m.a. með því að koma fram fyrir
þeirra hönd við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið og aðra atvinnurekendur í samræmi við 17.gr laga Læknafélags Íslands. Samningsréttur FAL verður ekki framseljanlegur til stærri samninganefnda.
2. Að tryggja félagsmönnum almenn réttindi hvað varðar vinnuálag og frístundir.
3. Að auka þekkingu og meðvitund almennra lækna varðandi réttinda-­‐ og kjaramál þeirra
4. Að efla áhuga og þátttöku almennra lækna á öllu er lýtur að framþróun í heilbrigðismálum
5. Að auka samvinnu, kynni og stéttarþroska íslenskra lækna.
6. Að stuðla að bættri þjálfun almennra lækna og aukinni grunn-­‐ og
símenntun allra lækna.
7. Að bæta heilsufar landsmanna og efla sjálfsvitund þeirra um ræktun
eigin líkama og sálar.

II. KAFLI Félagsaðild

4. gr.

Félagsmenn

Félagsmenn geta þeir orðið sem lokið hafa kandidatsprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands og eru búsettir og/eða starfa sem læknar á Íslandi, svo og íslenskir eða erlendir ríkisborgarar, sem tekið hafa kandídatspróf erlendis, en hafa lækningaleyfi á Íslandi. Læknanemar sem lokið hafa 4. ári í læknisfræði fá aukaaðild að FAL en hafa ekki atkvæðisrétt á fundum. LÍ heldur utan um félagatal og skal stjórn FAL sjá til þess að félagatal sé rétt og aðgengilegt öllum félagsmönnum.

5. gr.

Úrsögn

Úrsögn skal vera skrifleg og send stjórn félagsins með minnst 1 mánaðar fyrirvara. Ef FAL á í deilu við ríki, sveitarfélög eða aðra vinnuveitendur, getur enginn félagi leyst sig undan þeim skyldum, sem félagið leggur þeim á herðar.

6. gr.

Brottvísun

Stjórn FAL getur vísað félagsmanni úr félaginu fyrir alvarlega vanrækslu skyldustarfa, velsæmisbrot, brot á siðareglum lækna eða fyrir ítrekuð minni brot. Úrskurði stjórnarinnar um brottvikningu skal taka fyrir á næsta reglulega fundi félagsins til staðfestingar eða synjunar.

7. gr.

Heiðursfélagar

Félagið getur kosið heiðursfélaga, lækni, vísindamann eða velunnara félagsins. Val hans skal fara fram á löglegum aðalfundi og þarf samþykki a.m.k. 3/4 fulltrúa fundarins.

III. KAFLI

Aðalfundur, aukaaðalfundur og félagsfundir

8. gr.

Aðalfundur og aukaaðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda ár hvert á tímabilinu ágúst-­‐september. Stjórn félagsins eða fjórðungur félagsmanna geta kvatt til aukaaðalfundar ef þeir telja brýna nauðsyn bera til.
Stjórn FAL boðar til aðalfundar með tryggilegum hætti og a.m.k. 4 vikna fyrirvara. Heimilt er að boða til aðalfundar með rafrænum hætti. Tillögur til lagabreytinga, ályktana eða stjórnarkjörs skulu sendar stjórn félagsins a.m.k. 10 dögum fyrir fundinn. Stjórn FAL skal birta félagsmönnum eftirtalin gögn minnst 1 viku fyrir aðalfund:
1. Skýrslu stjórnar
2. Ársreikning liðins ár
3. Fjárhagsáætlun
4. Tillögur til lagabreytinga
5. Tillögur til ályktana
6. Tillögur um stjórnarkjör
7. Önnur mál sem borist hafa
Allir félagsmenn FAL eiga rétt á að sitja aðalfund með málfrelsi, tillögurétti og atkvæðisrétti.

9. gr.

Verkefni aðalfundar

Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi FAL og ræður fundarstjóri í samráði við formann og fundarritara í hvaða röð er fjallað um einstaka liði:
1. Skýrsla stjórnar
2. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins fyrir hið liðna reikningsár.
3. Gjaldkeri leggur fram fjárhagsáætlun næsta árs.
4. Ákvörðun félagsgjalds fyrir næsta ár.
5. Kosning stjórnar og meðstjórnar samkvæmt 11. grein.
6. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga.
7. Afgreiðsla lagabreytinga og ályktana.
8. Önnur mál.

Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.
Formaður eða staðgengill hans setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.Fundarstjóri rannsakar í fundarbyrjun hvort löglega hafi verið boðað til fundarins og lýsir því síðan, hvort svo sé.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Lagabreytingar eru lögmætar, ef aðalfundur er lögmætur og a.m.k. 2/3 fundarmanna greiða þeim atkvæði.
Ályktanatillögur um þau málefni sem eru á dagskrá fundarins, mega koma fram á fundinum sjálfum.
Aðrar tillögur til ályktana, sem ekki hafa verið kynntar skv. 5. mgr. 8. gr., verða því aðeins teknar á dagskrá, að a.m.k. helmingur aðalfundarfulltrúa samþykki það í atkvæðagreiðslu.
Atkvæðagreiðsla fer eftir því sem fundarstjóri kveður nákvæmar á um. Skrifleg atkvæðagreiðsla skal fara fram, ef einhver fundarmanna krefst þess. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á fundinum, nema annað sé tekið fram í lögum þesum.
Skýrslu stjórnar og niðurstöður aðalfundar skal birta svo skjótt sem auðið er.

10. gr.

Félagsfundir

Stjórn félagsins skal boða til almennra félagsfunda svo oft sem efni standa til, eða a.m.k. fjórðungur félaga krefjist þess. Félagsfundi skal boða, með tryggilegum hætti og a.m.k. 1 viku fyrirvara. Í fundarboði skal getið dagskrár. Fundurinn er ályktunarhæfur um tilkynnt dagsskráratriði, ef hann er löglega boðaður og fjórðungur félagsmanna er viðstaddur. Nú reynist fundur ekki ályktunarfær, og má þá boða til aukafundar um sömu mál. Þann fund má eigi halda fyrr en að viku liðinni, nema sérstaklega standi á og er hann ætíð ályktunarfær, enda skal þess getið í fundarboði, að ákvörðun verði tekin um dagskráratriði fundarins. Afl atkvæða ræður alla jafnan úrslitum mála á fundum félagsins. Við allar meiriháttar stefnumarkandi ákvarðanatökur og lagabreytingar þurfa 2/3 fundarmanna að samþykkja. Formaður skipar fundarstjóra og fundarritara og skal halda fundargerðir um alla félagsfundi.

IV. KAFLI

Stjórn félagsins, skipan og verksvið

11. gr.

Skipan og kjör stjórnar

Stjórn félagsins skipa 11 félagsmenn; formaður, ritari (sem jafnframt er varaformaður), gjaldkeri og 6 meðstjórnendur, ásamt tveimur fulltrúum úr hópi 5. og 6. árs læknanema. Fulltrúar læknanema í stjórn FAL eru valdir af stjórn Félags læknanema og hafa þeir atkvæðisrétt á stjórnarfundum FAL. Aðrir stjórnarmeðlimir eru kosnir á aðalfundi til eins árs í senn. Kjósa skal formann sérstaklega, síðan ritara, næst gjaldkera og loks meðstjórnendur alla í einu lagi. Leyfilegt er að tilkynna framboð á aðalfundi. Séu fleiri en tveir í framboði og falli atkvæði að jöfnu, skal kjósa aftur milli þeirra tveggja, sem flest atkvæði hlutu. Falli atkvæði aftur að jöfnu, eða hafi tveir verið í kjöri og atkvæði fallið að jöfnu, skal hlutkesti ráða. Ef einhver fundarmanna óskar þess skulu kosningar vera skriflegar. Forfallist maður úr stjórn félagsins, tilnefnir stjórn mann í hans stað úr hópi félagsmanna og þarf tilnefning hans ekki að bera undir aðalfund.
Heimilt er að greiða formanni útlagðan kostnað sem skapast vegna starfs hans. Skal sú upphæð ekki vera hærri mánaðarlega en sem nemur 10% af föstum grunnlaunum formanns skv. kjarasamningi LÍ. Ekki er gert ráð fyrir útlögðum kostnaði á tímabilinu júní-­‐ágúst, nema sérstakar aðstæður séu og skal þá gera grein fyrir þeim á aðalfundi félagsins.

12. gr.

Verksvið stjórnar

Stjórn félagsins fer með málefni þess milli aðalfunda. Stjórnin er ábyrg gagnvart aðalfundi. Verksvið stjórnar er að vera á verði og fylgjast með öllu er varðar hag allra íslenskra lækna búsettra á Íslandi eða annarsstaðar. Stjórn FAL skal þó einkum bera hag félagsmanna sinna fyrir brjósti og ber þá hæst kjaramál, atvinnumál og kennslumál. Stjórn ber ábyrgð á að halda samskiptum við formann Félags læknanema og boða hann á stjórnarfundi ef þess gerist þörf. Stjórn ber að stuðla að auknum samskiptum milli lækna á mismunandi vinnustöðum m.a. með því að standa að félagsstarfi og félagslífi meðal lækna.
Félagið er aðili að Nordisk rad for yngre legere (NRYL) og tekur virkan þátt í starfsemi þess. Þannig hefur félagið bein samskipti við önnur félög ungra lækna á Norðurlöndum. Erlend samskipti skulu vera á hendi formanns
félagsins nema annað sé ákveðið á aðalfundi. Æskilegt er að formaður sæki árlega fundi NRYL ef mögulegt er. Formaður ber ábyrgð á að varðveita öll skjöl sem tengjast samskiptum þessum og koma upplýsingum, sem þannig berast, á framfæri við alla félagsmenn.
Stjórnarfundir skulu haldnir á a.m.k. mánaðar fresti. Stjórnarfundir skulu boðaðir með sem lengstum fyrirvara og skal dagskrá fylgja fundarboði. Fundir stjórnar eru lögmætir þegar meirihluti stjórnar er mættur á fundi. Ritari skal skrá fundargerð allra stjórnarfunda í gerðabók félagsins. Dagskrá funda skal aðgengileg félagsmönnum á heimasíðu félagsins. Þá hafa félagsmenn aðgang að fundargerðum stjórnarfunda og geta óskað eftir því við stjórn félagsins að fá að skoða þær.Stjórnin skipar fastanefndir skv. 14. gr. til eins árs í senn og skulu nefndirnar vera fullskipaðar innan 1 mánaðar frá aðalfundi. Fastanefndir skulu skipaðar félagsmönnum og skulu nefndarformenn sitja stjórnarfundi að beiðni stjórnar þegar viðeigandi málefni nefnda eru til umræðu í stjórn. Stefna ber að því að nefndarformenn hafi starfað með nefndinni árið á undan sem meðstjórnendur. Stjórnin markar starfsvið fastanefnda á hverjum tíma og skal að minnsta kosti einn stjórnarmeðlimur taka sæti í hverri þeirra. Stjórnin getur skipað aðrar nefndir og/eða kvatt félagsmenn til nefndarstarfa, eftir því sem þurfa þykir. Allar fastanefndir skulu skila skýrslu um störf sín til stjórnarinnar, eigi síðar en 2 vikum fyrir aðalfund.

13. gr.

Vantraust

Óski félagsmaður að bera fram vantraust á stjórn eða einstaka embættismann, skal það gert skriflega og undirritað af a.m.k. fjórðungi félagsmanna. Stjórninni er skylt að taka vantraust fyrir á félagsfundi innan þriggja vikna og skal boða fundinn skv. 10. gr. laga þessara.

14. gr.

Fastanefndir Félags almennra lækna

Samninganefnd

Nefndina skipa a.m.k 4 læknar úr FAL og eiga tveir þeirra sæti í samninganefnd Læknafélags Íslands. Samninganefnd skal halda utan um kjarasamninga félagsmanna, annast kjararannsóknir og undirbúa gerð kjarasamninga. Nefndarmenn sjá um samningsgerð FAL við ríki og aðrar stofnanir þegar við á. Tilgangur nefndarinnar er einnig að stuðla að aukinni meðvitund og þekkingu félagsmann FAL varðandi réttinda-­‐ og kjaramál þeirra (sbr. 3. mgr. 3. gr). Nefndin skal halda reglubundna fræðslufundi, fyrir lækna og læknanema, um kjaramál og tengd efni.

Fræðslunefnd

Nefndina skipa a.m.k. 3 læknar úr FAL. Hún skal vinna að aukinni fræðslustarfsemi og endur-­‐ og símenntun félagsmanna. Nefndarmenn eru fulltrúar FAL í undirbúningsnefnd Læknadaga. Einn nefndarmanna situr í Fræðslustofnun lækna. Þá skal nefndin hafa yfirumsjón með fræðslu á heimasíðu félagsins og skal vinna að auknum umsvifum hennar og hvetja til notkunar meðal félagsmanna. Nefndin skal halda fræðslufundi um ýmis sérmálefni sem tengjast læknum.

Hagsmunanefnd

Nefndin skal skipuð amk. 3 félagsmönnum. Tilgangur nefndarinnar er að vinna að því að réttindi og kjarasamningar félagsmanna séu virt af einstökum vinnuveitendum. Einnig skal hún vinna að úrbótum á starfsskilyrðum á stærstu vinnustöðum félagsmanna, til að auka starfsánægju og tryggja að læknar geti nýtt menntun sína að fullu í þágu sjúklinga. Þá skal nefndin vinna sérstaklega að málum kandidata og skal einn nefndarmanna vera sérlegur fulltrúi þeirra. Nefndin skal standa vörð um að kandidatar hljóti tilskilda menntun og þjálfun á kandidatsári. Einnig skal unnið að því að starfsumhverfi kandidata sé þannig að þeir hafi möguleika á að sinna þessum þætti, t.d. þarf að huga að vinnuálagi og starfsaðlögun. Nefndin skal stuðla að því að starfandi séu trúnaðarmenn úr röðum félagsmanna FAL á helstu vinnustöðum þeirra. Trúnaðarmenn skulu skipaðir í samræmi við 28. grein laga um kjarasamning opinberra starfsmanna (nr.94/1986) og skulu trúnaðarmenn taka sæti í nefndinni. Félagsmenn geta ýmist leitað til trúaðarmanna sinna eða beint til nefndarinnar með réttindamál er varða vinnustað þeirra.

Skemmtinefnd

Nefndina skipa a.m.k. 3 læknar úr hópi félagsmanna. Nefndin skal leitast við að halda uppi félagslífi félagsmanna og efla samstöðu innan hópsins. Nefndin kemur að skipulagningu allra þeirra viðburða FAL stendur fyrir. Nefndin skal sjá um að auglýsa viðburði félagsins á áberandi hátt.

Upplýsinganefnd

Nefndina skipa amk. 3 fulltrúar úr hópi lækna, auk 1 fulltrúa úr hópi læknanema sem stjórn Félags læknanema tilnefnir. Nefndin skal efla innra starf FAL, m.a. með því að auka meðvitund félagsmanna um tilvist þess og tilgang, og stuðla að aukinni þáttöku í störfum félagsins og umræðum. Nefndin skal auk þess sjá um samskipti við fjölmiðla í samstarfi við formann og auka þannig vitund á málefnum almennra lækna í þjóðfélaginu. Nefndin ber ábyrgð á heimasíðu félagsins og samskiptum við vefstjóra og skal veita félagsmönnum tæknilega aðstoð eftir föngum. Skal einn nefndarmanna hafa þetta hlutverk sérstaklega á sinni könnu.

15. gr.

Skipan sérstakra nefnda og allsherjaratkvæðagreiðslur

Eigi félagið í deilum um laun félagsmanna eða önnur kjör, getur félagsfundur kjörið sérstaka nefnd eða nefndir til þess að koma fram af félagsins hálfu í deilunni eða falið stjórn FAL það hlutverk.
Óski a.m.k. 10% félagsmanna eftir allsherjaratkvæðagreiðslu um málefni er varða félagsmenn ber stjórn FAL að láta slíka atkvæðagreiðslu fara fram innan tveggja vikna. Skipa skal kjörstjórn sem í sitja a.m.k. 3 félagsmenn og skal kjörstjórn annast framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Slík allsherjaratkvæðagreiðsla má fara fram með tvennum hætti:
1. Tillaga sú, sem taka á ákvörðun um, skal send öllum atkvæðisbærum félagsmönnum ásamt atkvæðaseðli, er rita ber á já eða nei, leggja í umslag, loka því og leggja það í annað umslag, er beri með sér frá hverjum atkvæðið er. Bréfið skal síðan sent til kjörstjórnar innan þess frests, er hún hefur ákveðið fyrirfram. Áður en atkvæði eru talin, skal setja öll minni umslögin í kassa, blanda þeim síðan saman og telja.
2. Kjörstjórn tilkynnir félagsmönnum, hvar allsherjar-­‐atkvæðagreiðsla skuli fara fram og á hvaða tíma hún standi yfir. Atkvæðisbærir félagsmenn mæta þar og greiða atkvæði með því að skrifa já eða nei á atkvæðaseðilinn, sem síðan skal látinn í lokaðan kassa. Atkvæðagreiðslan samkvæmt þessum lið má ekki standa skemur en 2 daga, 12 klst. hvorn dag.

V. KAFLI

Fjármál

16. gr.

Árgjöld

Til félagsins rennur hluti af árgjaldi félaga til Læknafélags Íslands og er því ætlað að standa straum af rekstri félagsins. Aðalfundur getur þó ákveðið að félagsmenn greiði til viðbótar sérstakt árgjald til FAL sem rennur í félagssjóð. Slíkt árgjald skal greitt fyrir lok hvers árs. Heiðursfélagar skulu undanþegnir árgjöldum. Nú greiðir félagi ekki árgjald sitt og er stjórn félagsins þá heimilt að svipta hann félagsréttindum, uns hann hefur greitt gjaldið, hafi hann verið aðvaraður með minnst þriggja mánaða fyrirvara.

17. gr.

Fjárhagsáætlun

Stjórn félagsins skal undir stjórn gjaldkera gera fjárhagsáætlun fyrir hvert ár og leggja fyrir aðalfund. Rekstur félagsins og ráðstöfun fjárs skal vera innan ramma þess sem árleg fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir. Gjaldkeri þarf að samþykkja fyrirfram öll meiriháttar fjárútlát félagsins.

18. gr.

Reikningsár og yfirferð reikninga

Reikningsár félagsins skal miðast við aðalfundi. Tveir skoðunarmenn skulu rannsaka reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá.

Lög þessi voru síðast samþykkt með breytingum á aðalfundi 14. september 2012.