Ágætu félagsmenn!

Aðalfundur Félags almennra lækna verður haldinn föstudaginn 14. september n.k. kl. 20.00.
Fundarstaður verður í miðborg Reykjavíkur, nánari staðsetning kemur síðar.
Lagabreytingatillögum, ályktunartillögum og framboðum skal skila á ritari@fal.is í síðasta lagi 4. september (10 dögum fyrir fund) líkt og getið er í 10. gr laga FAL.
Þar segir ennfremur:

"10. grein:
Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal boða ár hvert á tímabilinu ágúst-september. Aðalfund skal boða með tryggilegum hætti og a.m.k. 4 vikna fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað. Tillögur til lagabreytinga, ályktana eða stjórnarkjörs skulu sendar stjórn félagsins a.m.k. 10 dögum fyrir fundinn. Stjórn FAL skal birta félagsmönnum eftirtalin gögn minnst 1 viku fyrir aðalfund:

Skýrslu stjórnar
Ársreikning liðins ár
Fjárhagsáætlun
Tillögur til lagabreytinga
Tillögur til ályktana
Tillögur um stjórnarkjör
Önnur mál sem borist hafa
Allir félagsmenn FAL eiga rétt á að sitja aðalfund með málfrelsi, tillögurétti og atkvæðisrétti. Formaður eða staðgengill hans setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.

Dagskrá aðalfundar:
Skýrsla stjórnar
Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins og yfirlit yfir stöðu sjóða í vörslu hans.
Gjaldkeri leggur fram fjárhagsáætlun næsta árs.
Ákvörðun félagsgjalds fyrir næsta ár.
Kosning stjórnar og meðstjórnar samkvæmt 15. grein.
Kosning endurskoðanda og varamanns hans úr hópi félagsmanna til eins árs í senn.
Lagabreytingar.
Önnur mál.

Varðandi framboð og kosningu í stjórn segir í 13. grein:
"Stjórn félagsins skipa 9 félagsmenn, formaður, ritari sem jafnframt er varaformaður, gjaldkeri og 6 meðstjórnendur, þar af tveir úr hópi 5. og 6. árs læknanema. Þeir skulu kosnir á aðalfundi úr hópi félagsmanna til eins árs í senn. Fulltrúar læknanema í stjórn FAL eru valdir af stjórn Félags Læknanema og hafa þeir atkvæðisrétt á stjórnarfundum FAL.
Kjósa skal formann sérstaklega, síðan ritara og gjaldkera. Afl atkvæða ræður kosningu en hlutkesti ef atkvæði eru jöfn. Séu fleiri en 2 í framboði skal kjósa aftur milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Meðstjórnendur og þrír varamenn stjórnar eru kosnir í einu lagi. Ef einhver fundarmanna óskar þess skulu kosningar vera skriflegar. Forfallist maður úr stjórn félagsins, tilnefnir stjórn og meðstjórn mann í hans stað úr sínum hópi. Tillögur um stjórnarmann þurfa ekki að berast fyrir aðalfund."

Mætum öll og látum okkur málefni félagsins varða, gleðjumst og dönsum!
Nánari gleðidagskrá síðar!

Stjórn skrifaði fyrir meira en 7 árum