Nú í upphafi sumars útskrifast um 50 læknakandídatar úr sex ára háskólanámi. Að námi loknu halda þeir í kandídatsnám í eitt ár, til þess að hljóta fullt lækningaleyfi og fer það fram með fullri vinnu í 12 mánuði á viðurkenndum heilbrigðisstofnunum. Þessir læknakandídatar hafa breiðan og góðan bakgrunn, eru vel að sér og hafa til að mynda skorað langt yfir meðaltali á stöðluðu bandarísku lokaprófi. Margir þeirra hafa einnig unnið töluvert með námi, á mismunandi sviðum og stofnunum. Þetta er að mínu mati gríðarlega eftirsóknarverður starfskraftur.

Því vakti það furðu mína að lesa ummæli forstjóra Landspítalans á forsíðu Fréttablaðsins 3. júní. Þar talar hann um að kandídatar séu „í allt annarri stöðu en venjulegir starfsmenn spítalans“ og að „staða þeirra sé ekki sambærileg stöðu annars starfsfólks“

Læknakandídatar ráða sig á stofnunina sem starfsmenn líkt og aðrir „venjulegir“ starfsmenn. Vissulega eru þeir í starfsnámi og samkvæmt reglugerð um kandídatsnámið skal þeim tryggð skipulögð kennsla, handleiðsla og fræðsla en undanfarið hefur verið mikill misbrestur á því. En hvað er það sem gerir kandídata „óvenjulega“ starfsmenn? Er það vegna þess að búnings- og starfsaðstaða þeirra er mjög bágborin og ekki í takt við lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustað? Hugsanlega skera þeir sig úr þar sem grunnlaun þeirra eru lægst af háskólastéttum miðað við lengd námsins og hafa einungis hækkað um rúm 8% frá 2007 á sama tíma og laun annarra háskólastétta hafa hækkað um 28-43%.

Fá litla aðlögun

Þegar þeir koma til starfa á LSH fá þeir litla aðlögun að flóknu starfi, og á sumum sviðum er sú aðlögun ekki launuð. Þeir þurfa að skipta oft um svið og deildir, þar sem vinnulag er ólíkt en oftast liggja ekki fyrir starfslýsingar fyrir starf þeirra og sést það á því að 47% segjast aðspurð ekki vita til hvers er ætlast af þeim í starfi. Er það ástæðan fyrir því að þeirra staða er ólík stöðu annarra starfsmanna? Þeir vinna undir gífurlegu álagi og skila fjölmörgum vinnustundum á viku, oft umfram hámarksvinnutíma, sem er 48 stundir. Er það ástæðan? Eða er ástæðan hugsanlega sú að þeir vinna ólaunaða yfirvinnu til að ljúka verkefnum sem ekki næst að ljúka við á dagvinnutíma vegna stöðugrar undirmönnunar?

Einungis 12% þeirra kandídata sem svöruðu starfsumhverfiskönnun LSH 2012 sögðust geta klárað verk sín svo fullnægjandi væri og 76% þeirra upplifa líkamleg og andleg álagseinkenni vegna starfsins. Hefur þetta valdið því að læknakandídatar eru ein óánægðasta stétt LSH frá 2010. Á þetta hefur verið bent, en lítið um viðbrögð frá stjórnvöldum og yfirstjórn spítalans.

Þversagnakennt

Það er nokkuð þversagnakennt að stofnun sem ætlað er að vera leiðandi í heilbrigðisþjónustu og einn besti vinnustaður landsins hafi ekki áhuga á að bregðast við þessum rauðu flöggum. Má benda á að í nýgerðum stofnanasamningi við hjúkrunarfræðinga var skipaður starfshópur til að bregðast við niðurstöðum starfsumhverfiskönnunar varðandi vinnu- og starfsumhverfi þeirrar stéttar, en ekki ber á slíku í tilfelli kandídata eða annarra lækna.

Því miður hefur þetta viðhorf stofnunarinnar leitt til þess að færri almennir læknar og sérfræðingar sækja í störf þar og stöðugt fleiri læknar halda utan til starfa, að hluta til eða alveg. Nú er svo komið að þeir kandídatar sem útskrifast í sumar hafa gert stofnuninni það ljóst að þeir sjá sér ekki fært að koma til starfa við óbreyttar aðstæður. Hafa þeir óskað eftir samstarfi við spítalann varðandi úrlausnir vegna starfsaðstæðna, mönnunar, kennslu, álags og launa. Ég vona að það samstarf verði lausnamiðað, til þess að komist verði hjá því að missa af þessu frábæra starfsfólki, enda myndi slíkt hafa mikil áhrif á starfsemi spítalans, sem glímir nú þegar við undirmönnun á ýmsum sviðum.

Ekki er hægt að fjalla um forsíðufréttina og ummæli forstjórans án þess að minnast á lokaorðin: „Spítalinn virðir kjarasamninga og hefur alltaf gert“. Fjölmörg dæmi bera vott um annað. Hér nefni ég örfá dæmi sem ég tel að misbrestur hafi orðið á, án þess að fara út í smáatriði; brot á frítökuréttarákvæðum, brot á vinnutímatilskipun, brot á kjarasamningsbundnum réttindum vegna veikinda barna, röng röðun í launatöflur og misbrestur á greiðslu fyrir unna yfirvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Í mörgum tilfellum hefur spítalinn ekki farið eftir kjarasamningsákvæðum nema að undangengnu dómsmáli, og er það miður.

Ég tel að skilja megi orð forstjórans svo að spítalinn hyggist bæta úr þessum málum og gæta þess í hvívetna að virða gerða kjarasamninga!

Stjórn skrifaði fyrir u.þ.b. 7 árum