Grein eftir Stein Jónsson, formann Læknafélags Reykjavíkur.

Landspítalinn er enn og aftur kominn í fréttirnar vegna deilna milli starfsfólks og framkvæmdastjórnar spítalans. Að þessu sinni snýst málið um kjör nýútskrifaðra kandídata frá Læknadeild Háskóla Íslands sem eru að hefja sinn læknisferil og vilja ekki ráða sig á Landspítalann vegna lélegra starfsskilyrða og launakjara. Forstjóri LSH gerir lítið úr þessu máli í viðtali og heldur því fram að það snúist um kjarasamninga og LSH virði kjarasamninga og hafi alltaf gert.

Forystumönnum lækna kemur þessi fullyrðing nokkuð spánskt fyrir sjónir. Sannleikurinn er sá að á undanförnum árum hefur hvert málið rekið annað þar sem LSH hefur farið á svig við gildandi samning Læknafélags Íslands og ríkisins. Því miður eru í þessum samningi nokkur mikilvæg atriði þar sem aðilar deila um túlkun.
Yfirleitt er enginn samningsflötur á neinum málum þegar kemur að LSH heldur beitir spítalinn ofríki gagnvart starfsmönnum og nýtur oft til þess fulltingis ráðuneyta og samninganefndar ríkisins. Læknafélögin hafa nú gripið til þess ráðs að vísa slíkum deilumálum í vaxandi mæli til dómstóla.

Nýlega var það upplýst að tugir lækna eldri en 55 ára voru í röngum launaflokki og áttu rétt á leiðréttingu launa jafnvel mörg ár aftur í tímann. Ekki náðist samkomulag um það, en samkvæmt túlkun LSH báru læknarnir sjálfir ábyrgð á því í hvaða launaflokk þeir voru skráðir hjá spítalanum. Ágreiningur vegna þessa máls er nú á leiðinni til dómstóla.

LSH neitaði ungum lækni um laun þegar hún forfallaðist vegna veikinda barns. Læknirinn lét ekki bjóða sér það og leitaði til Læknafélags Íslands. LÍ vísaði þessu máli til félagsdóms sem féllst á kröfu læknisins og LÍ. Þetta er örugglega ekki eina dæmi sinnar tegundar og vafalaust er algengt að fólki finnist á sér brotið án þess að gera mikið úr því. Það þarf áræði hjá ungum lækni til að fara í mál við spítalann þó svo að hún hafi notið til þess fulltingis læknafélaganna. Algengara er vafalaust að fólk hugsi til þess hvaða afleiðingar það gæti haft ef staðið er á rétti sínum.

LSH hefur neitað öllum læknum um laun fyrir yfirvinnu sem sannanlega er unnin milli vakta eða eftir að vakt lýkur. Sú vinna er unnin á hverjum degi og er nauðsynleg í þágu sjúklinganna og hluti af góðum starfsháttum lækna. Ef greiða á fyrir vinnu utan vakta þarf sérstaka ákvörðun hlutaðeigandi yfirlæknis í hvert einasta sinn. Það er svo þungt í vöfum að það er nánast óframkvæmanlegt meðfram daglegum störfum. Þessi regla kemur mest við ungu læknana sem hafa lengsta viðveru.
Þannig hafa læknar LSH, kandídatar, almennir læknar og sérfræðilæknar unnið þúsundir vinnutíma á undanförnum árum launalaust til þess að tryggja það að sjúklingum sé vel sinnt og verkefnum sé lokið með sómasamlegum hætti. Svipaða sögu er að segja um frítökurétt vegna skerðingar á lögbundnum hvíldartíma, ekki síst hjá ungu læknunum.

Ástandið innan Landspítalans er orðið mjög mikið áhyggjuefni. Sífelldar deilur starfsfólksins við ráðamenn spítalans eru skýr vitnisburður um það. Þegar mikilvægt þykir að sýna fram á góða rekstrarstöðu svo sem á ársfundi eða í föstudagspistlum forstjórans er gjarnan talað um að starfsfólkið hafi staðið sig vel. En í raun er lítil virðing borin fyrir störfum þessa frábæra fagfólks af hálfu framkvæmdastjórnar spítalans og er fyrrgreint fréttaviðtal gott dæmi um það.

En hvers vegna hafa samskipti framkvæmdastjórnarinnar við starfsfólk LSH þróast með þessum hætti? Framkvæmdastjórn LSH býr því miður í fílabeinsturni og hefur gert frá því að spítalarnir í Reykjavík voru sameinaðir. Það virðist vera innbyggt í stjórnkerfi spítalans hverjir svo sem þar eiga sæti. Nauðsynlegt er að stjórnvöld leiti skýringa á þessum vanda, komist til botns í því hvað veldur og hvernig unnt er að koma á eðlilegum starfsanda á þessari mikilvægustu stofnun heilbrigðisþjónustunnar.

Sjá í upphaflegri mynd: https://dl.dropboxusercontent.com/u/13678280/grein_steinn.pdf

Stjórn skrifaði fyrir næstum 7 árum