Nýverið var birt skýrsla um Starfsumhverfiskönnun Landspítala og hefur Landspítalinn lagt sig allan fram við að halda á lofti því litla sem jákvætt er í niðurstöðunum. Algjörlega hefur hinsvegar verið horft framhjá óánægju almennra lækna á Landspítala, sem þó er líkt og rauður þráður í gegnum alla skýrsluna.
Í umræddri könnun er vissulega jákvætt að almennir læknar sýna umhyggju og fagmennsku í starfi. En framþróun og framgangur í starfi okkar er hverfandi og við áhrifalítil um ákvarðanir er snerta starfssvið okkar. Ógnvekjandi er hversu mörgum almennum læknum þykir Landspítali ekki aðlaðandi vinnustaður sem sést best á því að allt að 85% almennra lækna telja ólíklegt að þeir verði í vinnu þar að tveimur árum liðnum. Er þetta til viðbótar við þá 20% fækkun almennra lækna á LSH sem þegar hefur orðið á skömmum tíma.
Þegar litið er nánar á líðan í starfi þá telja almennir læknar sig leggja metnað í starf sitt en vinnudagurinn dugi ekki til þess að skila fullnægjandi starfi. Vinnuálag er allt of mikið og almennir læknar eiga erfitt með að skilja að vinnu og frítíma og njóta þess síðarnefnda. Birtist þetta m.a. í því að allt að 75% almennra lækna sýna streitueinkenni, 90% þreytueinkenni, 50% þjást af andlegri vanlíðan og 60% með líkamleg álagseinkenni. Einnig hafa 20-35% almennra lækna orðið fyrir niðurlægjandi framkomu, hótunum eða ofbeldi af hálfu yfirmanns eða starfsmanns á síðustu 12 mánuðum.
Nú þegar sjá allir sem sjá vilja að læknaflótti er brostinn á á Íslandi, sérstaklega meðal almennra lækna og yngri sérfræðinga. Nú þegar gengur skelfilega að ráða nýja sérfræðilækna á Landspítala. Heldur einhver að það muni ganga betur þegar 85% almennra lækna hefja sitt sérnám brenndir af vinnuálagi og skilningsleysi á Landspítala?
Einkunnarorð og stefna Landspítala eru umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun og þetta sýna almennir læknar í sínu starfi og gagnvart sjúklingum þeim er við sinnum.
Er til of mikils mælst að vinnuveitandi okkar sýni okkur hið sama?

Höfundar:
Ómar Sigurvin, meðstjórnandi í Félagi almennra lækna (FAL)
Eyjólfur Þorkelsson, formaður Félags almennra lækna (FAL)

Stjórn skrifaði fyrir næstum 8 árum